Ég þekki verkin þín, elsku þína og trú, þjónustu þína og þolgæði og veit að hin síðari verk eru meiri en hin fyrri.  Opinberunarbókin 2:19 


Hús mitt skal nefnast bænahús fyrir allar þjóðirTrúboð

Trúboðsíða Vonarinnar vonin.ws

17.8.2006

Trúboðsferð til Úganda júlí 2006

Við Árni Þórðarson, Vilhjálmur Hendrik Karlsson og Kolbeinn Sigurðsson fórum þann 5. júlí 2006 í trúboðsferð til Úganda.

Solomon forstöðumaður tók á móti okkur á Entebbe flugvelli sem er í Úganda og flugvélin lenti nærri því á miðbaug. Við vorum með raðsamkomur í Rependance and Forgiveness Church. Síðan voru raðsamkomur í Living Water Church og Drottinn gaf mikla smurningu á báðum stöðum.

Dýrð sé hans heilaga nafni! Þekkingarorð kom fram fyrir marga um fyrirheiti Guðs um lækningu. Og ég hef aldrei verið vitni af svo mörgum kraftaverkum og lækningum. Fjölmargir læknuðust af heyrnarleysi, sjónleysi, hitasótt, hjartakvillum, blóðláti, lömun, gigt og margir sem voru búnir að þjást lengi fóru heim verkjalausir.
 
Eftirminnilegast var 10 ára drengur sem hafði verið mállaus og heyrnarlaus frá fæðingu. Þegar það var búið að biðja fyrir honum, heyrði hann algjörlega og sagði sín fyrstu orð í hljóðnemann: "Jesús, Jesús!" Fólkið sem sá og heyrði þetta æpti fagnaðaróp yfir þessu kraftaverki. Þetta gerðist á útisamkomu, þar sem mörg þúsund manns voru vitni að Dýrð Drottins. Einnig læknaðist ungur maður sem hafði verið heyrnarlaus á vinstri eyra frá fæðingu og hann kom til mín eftir eina samkomu og sagði mér að heyrnin væri fullkominn á báðum eyrum. Það var beðið fyrir barni sem sá mjög illa og það læknaðist. Kona sem var hálf lömuð hægra megin og hún gat ekki lyft upp hægri hendi. Eftir fyrirbænina rétti hún stöðuglega upp og niður hendinni og hrópaði: "Ég er læknuð". Við vorum með 18 samkomur á þessum 12 dögum sem þessi trúboðsferð tók. Og fjöldinn sem við sáum læknast skipti fleiri tugum, en auðvitað voru einhverjir sem fengu lækning og við vissum ekki um. Það var mjög sérstök upplifun að sjá Drottinn starfa á svona máttugan hátt. Maður fann sig smáan og skynjaði Guð enn stærri en áður.

Í þessari ferð fengum við tækifæri til heimsækja skólann í Kitetika sem ABC Barnahjálp hefur staðið á bak við. Þetta er magnað starf, því meirihluti nemenda sem fá hjálp eru munaðarlausir. Það er hugsað vel um börnin þar, og sérstaklega var tekið fram að Íslenskir stuðningsaðilar eru trúfastir og duglegir að senda gjafir á jólum og afmælisdögum. Skólinn hefur orð á sér fyrir fyrirmyndarkennslu og er námsárangur mjög góður. Þetta hefur skilað góðum áhrifum út í samfélagið og ekki síst vegna þess að flestir kennarnir eru kristnir og er börnunum gefin kostur á því að kynnast kristinni trú. Þarna eru fleiri hundruð börn sem eru að fá tækifæri á nýju lífi. Það er séð um menntun, fæði, klæði, læknishjálp og húsnæði. Maður fann fyrir stolti að sjá Íslenska fánann blakta við hún á skólalóðinni.

Það var haldið einn daginn inní frumskóginn og komið í þorp sem heitir Kasala. Þar hafði ég komið fyrir tveimur árum með Guðbergi Birgissyni og þá vorum við fyrstu hvítu mennirnir sem höfðu komið þar. Börnin sem höfðu ekki séð hvítan mann vildu fá að þefa af okkur. 2004 var predikað fagnaðarerindið yfir öllum þorpsbúum og beðið með öllum til frelsis. Einnig var þá líka tekin fyrsta skóflustunga af skóla. Núna tveimur árum síðar voru komnar tvær skólabyggingar með 320 nemendur. Við vorum með samkomu þarna í þorpinu og margir skírðust í Heilögum Anda og læknuðust. Eftir samkomuna var starfsfólki skólans gefin föt sem við komum með og það var eins og jól fyrir þau. Áður en við fórum vildu þau gefa okkur að borða kássu sem er búin til úr rótum (Kasava) og baunum. Menn voru ekki sammála um hvort þetta væri góður eða hollur matur. En eftir þessa ferð í þorpið urðum við Vilhjálmur veikir í maganum.

Það sannarlega hægt að gefa Guði dýrðina fyrir það sem hann gerði í þessari ferð. Við héldum heim á leið með þakklæti fyrir að fá að vera vitni af verki Guðs í Úganda.

Náð og friður frá Drottni Jesú Kristi,

Bróðir í Kristi, Kolbeinn Sigurðsson

  Bænahúsið | Fagraþing 2a | 203 Reykjavík Ísland | baenahusid@baenahusid.is  
  Banki: 0116-05-063995 | kt. 460406-1370